Austur, ekki suður

Þá er það opinbert. Ég fer austur að þjálfa í sumar, nánar tiltekið í Fjarðabyggð. Í leiðinni ætla ég að vinna að lokaverkefninu mínu í alþjóðasamskiptum í HÍ. Þetta getur varla orðið annað en gott sumar. 

Tælands-prójektið var til 8 mánaða. Þótt þingið sé með langt sumarleyfi þá nær það ekki alveg átta mánuðum, svo kannski síðar. 

Mér líst ljómandi vel á að fara austur, enda í fyrsta sinn sem ég fæ þá tækifæri til að þjálfa meistaraflokk. Það verður gaman. Svo tek ég líka 5. fl. á Norðfirði. Skilst það sé nokkuð stór hópur. Jibbíjei

 

 


Smælandi í Tælandi

Sumir póstar eru skemmtilegri en aðrir. Ég gladdist mjög við póst frá fyrrum samkennara mínum í Tælandi sem vinnur nú hjá svonenfdri Institute of Physical Education í Bangkok. Pósturinn var sum sé boð um starf við fótboltaþjálfun í Tælandi. Ég hef ekki enn fengið að vita hvaða hóp er um að ræða eða hvort þetta er í gamla skólanum mínum í Suphan Buri eða hvort mér er ætlað að vera í Bangkok. 

Ég verð hins vegar að játa að þetta kítlar talsvert enda leið mér vel í Tælandi. Aðrar skuldbindingar gætu samt staðið í veginum en við sjáum hvað setur. 

 


Jafnréttisstefna KSÍ

Ég fagna svo sannarlega ákvörðun stjórnar KSÍ um að skipa starfshóp til vinna tillögur um jafnréttisstefnu. Sýnist líka að reynslumikið og öflugt fólk skipi hópinn og það verður spennandi að sjá tillögurnar. 

Svo er gaman að segja frá því að Geir Þorsteinsson sagði í samtali við Morgunblaðið að "í aðdraganda formannskosninganna hafi komið fram ásakanir um að jafnræðis og jafnréttis væri ekki gætt innan hreyfingarinnar en þó að stjórnin teldi að þessar ásakanir ættu ekki við rök að styðjast, hefði hún talið rétt að setja sér jafnréttisáætlun, því knattspyrnuhreyfingin væri landssamtök opin öllum."

Enn og aftur, krúttilegt.

En til hamingju KSÍ með þessa góðu ákvörðun. 


Rök og rökleysur

Ég átti von á því að framboðinu mínu lyki sl. laugardag með kosningunni. Svo hefur þó ekki verið og ég áttaði mig allt í einu á að ég hef hafið baráttu sem er ekkert að hætta. Ég fæ ennþá tölvupósta frá fólki sem þakkar mér framboðið og vill koma einhvejru á framfæri. Frá foreldrum, leikmönnum og áhugamönnum. Mér þykir vænt um hvert og eitt þessara bréfa og kem því hér með á framfæri þakklæti til þeirra sem hafa sýnt stuðning í verki með þessum hætti. 

Ég heyri líka sögur af "af hverju fólk kaus mig ekki". Mér finnst dálítið fyndið hvað mörgum hefur þótt ástæða til að afsaka sig aðeins fyrir að hafa ekki lagt í að kjósa mig. Sumum fannst ég of róttæk, sem er líka spaugilegt enda get ég ekki séð mikla róttækni í saklausu slagorði á borð við fótbolta fyrir alla. Sumir segja hafa farið fyrir brjóstið á sér að flokksráð Vinstri grænna hafi lýst yfir stuðningi við mig. Fyrst ber að taka fram að þetta var ekki stuðningsyfirlýsing heldur lýsti ráðið yfir ánægju með framboðið og taldi það skref í jafnréttisbaráttunni. Það er þeirra skoðun og ég get ömögulega ákveðið hverjir styðja mig og hverjir ekki. Ég frétti af þessari yfirlýsingu eftr að hún var samþykkt og fagnaði honum eins og öðru jákvæðu í garð framboðs míns til formanns KSÍ. Enn ein rökin fyrir að kjósa mig ekki eru að ég hafi ekki klifrað upp stigann innan KSÍ. Það breytir því ekki að Jafet Ólafsson, sem hafði heldur ekki gert það, fékk tífalt fleiri atkvæði en ég.

Annars lærðum við það í uppeldisfræðinni í Kennó að ef e-r nefnir þrjár ástæður fyrir mistökum eða broti þá er hann/hún að ljúga. D. ég lána frænku minni teketil og fæ hann brotinn til baka. Frænkan segir: Ég sko, hann dat tí gólfið, eða sko óli missti hann og svo, eða þú veist  það var jarðskjálfti.

Sambærilegt:

Halla Gunnarsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ.

- Hún getur ekki verið formaður.

- Af hverju?

- hún er kona

- það eru engin rök

- úps, hún er of ung

- en hún er með töluvert mikla reynslu

- hún veit ekkert um fótbolta

- jú reyndar, og hefur þjálfað í Tælandi og ég veit ekki hvað og hvað

-  hún er ekki með nein stefnumál, hún bullar bara

- tjah, hún gaf nú út stefnuskrá með helstu málefnunum sínum, það hafa hinir frambjóðendurnir ekki gert

- já, er það ekki bara útópískt?

- tjah, mér virtist hún setja fram bæði markmið og leiðir að markmiðum 

- hún er kvennapólitísk

- af hverju? af því að hún er kona? Eru Geir og Jafet þá ekki karlapólitískir?

- hún er a.m.k. femministi

- það heitir femínismi, og hvað er svona slæmt við það? Getur það spillt einhverju í KSÍ? 

- hún er örugglega kommúnisti, ég sá að VG lýsti yfir stuðningi við hana

- tjah, hún ræður ekki hverjir styðja hana

- hún er alltof róttæk

- já, fótbolti fyrir alla er svaka róttækt

- hún hefur ekki verið í stjórn KSÍ, og heldur ekki verið framkvæmdastjóri í 13 ár og svo heitir hún ekki Geir.

- já, þetta er rétt hjá þér, við skulum ekki kjósa hana. 

 

 


Misskilningur

Formaður KSÍ hefur ítrekað hunsað óskir mannréttindanefndar Reykjavíkur en nefndin óskaði fyrir margt löngu eftir upplýsingum um kynjamismunun innan hreyfingarinnar sem brýtur í bága við styrkjastefnu borgarinnar. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag. 

Óskað var eftir því 1. nóvember sl. að formaður KSÍ mætti á fund hjá nefndinni en þrátt fyrir ítrekun barst ekkert svar. Viðbrögð Geirs Þorsteinssonar, hins nýkjörna formanns KSÍ, í Fréttablaðinu í dag eru með eindæmum. Hann segir að dagpeningagreiðslurnar hafi verið jafnaðar og að nefndarmenn í mannréttindanefndinni séu líklega bara ekki að fylgjast með. Nú skal bent á að gagnrýnin snéri að því að formaður KSÍ hafi hunsað beiðni um að mæta á fund, ekki um dagpeningagreiðslur. Reykjavíkurborg styrkir mannvirkjagerð KSÍ með háum fjárhæðum og í ávarpi sínu í upphafi ársþingsins lagði Björn Ingi Hrafnsson mikla áherslu á jafnréttismál. Nýr formaður KSÍ ætti því alvarlega að huga að því að vinna með borginni frekar en að birtast í blöðum og hafa ekkert gáfulegra fram að færa en órökstuddar fullyrðingar um að málið byggi á misskilningi.

Misskilningur er greinilega nýja uppáhaldsorðið hans Geirs því af ummælum hans í Mogganum í gær mátti líka skilja að við Jafet hefðum dálítið verið að misskilja með því að bjóða okkur fram, misskilja hverjir fengju að kjósa. Formannsefnið ætti að koma nákvæmlega sömu leið og Geir sjálfur inn í hreyfinguna. Mér finnst þetta dálítið krúttilegt.

En hver er misskilningurinn varðandi mannréttindanefndina?

Mannréttindanefnd: Við óskum eftir formanni KSÍ á fund

KSÍ: (þögn)

Mannréttindanefnd: Okkur þætti mjög vænt um að formaður KSÍ kæmi á fund hjá okkur

KSÍ: (þögn)

Mannréttindanefnd: Við ítrekum ósk okkar um að formaður KSÍ láti sjá sig á fundi hjá okkur

 KSÍ: (þögn)

Mannréttindanefnd: Heyrðu, formaður KSÍ mætir bara ekkert á fund hjá okkur.

KSÍ: Þið eruð að misskilja!

Það er von að fólk spyrji sig hver er að misskilja?  


Viðtal í Mogganum í morgun

Ég hvet fólk til að lesa viðtal við Geir Þorsteinsson í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Ég náði að vísu bara að stikla á stóru með hafragrautnum í morgun en sýnist að þarna komi sjónarmið KSÍ skýrt fram og þá ekki síst m.t.t. til kynjasjónamiða. Um leið og tími gefst mun ég eflaust hnoða saman smá pælingum um þetta og birta í Mogganum. 

 

 


Fótbolti.net

Ég gelymdi að óska fótbolta.net til hamingju með viðurkenninguna sem síðan fékk á KSÍ þinginu. Þarna eru dugnaðarforkar á ferð og kæmi mér ekki á óvart að þeir ættu eftir að veita mér samkeppni í blaðamennsku seinna meir!

 


Allt tekur enda...

Þá er kosningin búin. Geir Þorsteinsson var kjörinn formaður KSÍ með miklum yfirburðum. Ég óska honum til hamingju með það. Hvorki ég né Jafet Ólafsson náðum eins góðri kosningu og við bjuggumst við. Jafet fékk 29 atkvæði og ég aðeins þrjú. Þetta þýðir að aðeins 32 af 118 fulltrúum vildu breytingar. Það eitt og sér kom mér á óvart því það var ekki í takti við það sem ég heyrði á fólki í  samtölum og símtölum. Mér finnst standa upp úr að kjósendur fengu að velja á milli áherslna enda stóðum við þrjú fyrir mismunandi hluti þótt ákveðinn samhljómur væri hjá okkur öllum. 

 Það gefur augaleið að bæði ég og Jafet sóttum stuðning okkar meira til smærri félaga þótt Jafet hafi líka náð einhverjum "stórjöxlum" á sitt band. Ég stend fast á því, eins og reyndar nokkrir þingfulltrúar sem ég ræddi við, að skipting atkvæða með þeim hætti sem hún er í lögum sé ekki rétt enda á KSÍ að vera samband allra félaga sinna. Mér þætti eðlilegra að félög fengju einn fulltrúa fyrir að halda úti meistaraflokki karla, annan fyrir að halda úti meistaraflokki kvenna og þann þriðja fyrir að vera með virkt yngri flokka starf. Það er að mínu mati miklu lýðræðislegra.

Á göngunum var pískrað um hrossakaup varðandi kosningu til formanns og kosningu í stjórn. Ég veit ekki hvort eitthvað sé hæft í því en ef svo er þá finnst mér það ekki vera til fyrirmyndar fyrir knattspyrnuhreyfinguna. 

Margir þökkuðu mér fyrir ræðuna sem ég flutti og fögnuðu þeim áherslum sem ég lagði upp með. Einn fulltrúi sagði að hefði fólk ekki komið með fyrirfram mótaðar hugmyndir á þingið hefði ég fengið miklu fleiri atkvæði. Og það er líklega það sem mér finnst skrítnast við þetta allt saman, að það er eins og allt hafi verið ákveðið fyrirfram.

Það er auðvitað svolítið spennufall í mínum herbúðum. Ég spurði mig í morgun hvað ég ætti núna að gera. Síðustu mánuðir hafa verið undirlagðir vinnunni við framboðið og það var að mörgu að hyggja. Þetta hafa verið skemmtilegir mánuðir og eiginlega skemmtilegast að tala svona mikið um fótbolta!

Upp úr stendur sá mikli velvilji og stuðningur sem ég hlaut og ég er óendanlega þakklát öllu því fólki sem lagði hönd á plóg eða sýndi stuðning sinn á annan hátt. Mín tilfinning er að þjóðfélagið hafi viljað sjá breytingu, en KSÍ var ekki tilbúið.  Misgóðir pennar hafa gagnrýnt mig fyrir að hafa haldið að stuðningur í þjóðfélaginu skipti einhverju máli, en þeir átta sig ekki á að þar sem fótbolti er vinsælasta íþrótt í heimi, og á Íslandi, þá hefur þjóðfélagið svolítið mikið um fótbolta að segja!

Ég spila alla mína leiki til að sigra. Ég er með mikið keppnisskap og óhjákvæmilegur fylgikvilli þess er að vera tapsár. En ég er alin upp í litlu liði sem tapaði oft og þess vegna kann ég bæði að tapa og vinna. Og þetta er ekkert í fyrsta sinn sem ég tapa fyrir KR á útivelli... og þriðja sætið er kannski ekki svo slæmt ;)  

 


Ársþing KSÍ hafið

Þá er ekki meira sem við getum gert, enda ekki með seturétt á ársþingi KSÍ - og það sama gildir um flesta af þeim 300 stuðningsmönnum sem hafa skráð sig hér á síðunni.

Við viljum þó þakka fyrir frábær viðbrögð við framboðinu og vonum að sá mikli stuðningur sem almenningur hefur veitt Höllu hafi haft áhrif á þá sem með atkvæðin fara í dag. Í Íþróttablaði Morgunblaðsins í dag birtist þessi stuðningsyfirlýsing:

halla

Við munum fylgjast með ársþinginu hér á síðunni og birta það sem markvert þykir eins fljótt og kostur gefst.

Bestu kveðjur,

Stuðningsmenn!

 


Skoðanakönnun Fréttablaðsins

Fréttablaðið á hrós skilið fyrir mikinn áhuga á málefnum KSÍ, þar með talið formannskjörinu sem fram fer á morgun.

Fréttablaðið gerði skoðanakönnun meðal þingfulltrúa og birtir niðurstöður hennar í dag. Ég skoðaði fréttina fyrst og verð að játa að það kom mér á óvart að Geir væri með svona góða stöðu. Ég vissi að hann væri sterkur en miðað við samtöl okkar við þingfulltrúa hefði ég ekki haldið að hann næði 82% atkvæða. En þegar ég svo skoðaði fréttina betur þá vakti smærri taflan athygli mína. Þar kemur nefnilega fram að Geir hafi 46,9% atkvæð og að tæp 43% hafi verið óákveðin eða ekki viljað svara.

Samkvæmt 12. gr., 4-lið, núgildandi laga KSÍ þarf formaður að ná meirihlutakosningu. Það þýðir að nái eitt okkar ekki yfir 50% atkvæða í fyrstu umferð verður farin önnur umferð. Geir á dygga stuðningsmenn sem liggja ekki á skoðunum sínum en ég þykist viss um að bæði ég og Jafet eigum stuðningsmenn sem hika aðeins við að láta skoðun sína afdráttarlaust í ljós, þó ekki sé nema bara af því að þeir eru synda á móti straumnum. Ef Geir fær 47% atkvæða, eins og skoðanakönnunin gefur til kynna, verður farin önnur umferð. Og þá verður spennandi kosning...

 

--- 

Í lögunum segir orðrétt:  "Til þess að ná kjöri sem formaður KSÍ, þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu, skal kjósa á ný, bundinni kosningu, um þá tvo menn, sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband