Tveir dagar í þingið

Nú eru aðeins tveir dagar í KSÍ þingið og í nógu að snúast í okkar herbúðum. Stenfuskráin ætti að vera komin til aðildarfélaganna og ef e-n vantar hana er hún hérna til hliðar en einnig getum við sent hana með tölvupósti.

Eini gallinn við þetta er hvað ég hef lítið komist í fótbolta undanfarið. Ég ætti samt að ná einum tíma á morgun í hinu stórgóða liði KMF, þó ekki sé nema rétt til að dreifa huganum frá KSÍ yfir í boltann sjálfan. 

Og ef þið eruð ekki enn búin að skrá ykkur á stuðningsmannalistann, endilega drífið í því. Hann hefur verið með e-r leiðindi við suma en ég vona að hann sé farinn að bjóða alla velkomna.

Halla  


Allt að gerast

Yfir 250 manns hafa skráð sig á stuðningsmannalistann. Málefnaskráin er á leið til allra félaganna og nú er ekkert annað en að byrja að telja niður til kosninga.

Endilega haldið áfram að skrá ykkur á listann og dreifið málefnaskránni sem víðast!

Halla 


Könnun um næsta formann KSÍ

Nú eru a.m.k. þrjár kannanir um formennsku KSÍ: Á fóbolta.net.
vefsíðu Sóleyjar og hjá Katrínu Önnu.

Hvet fólk til að kjósa!

Halla


Málefnaskráin lítur dagsins ljós

Jæja. Þá er hún tilbúin. Mikið erum við stolt af málefnaskránni hennar Höllu. Stoltust erum við þó af Höllunni sjálfri.

Bestu kveðjur,

Stuðningsmenn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aaalveg að smella

Ég sit daglega niðri á Alþingi og skrifa fréttir af því hvað þingmenn eru lengi að hinu og þessu. Lengi að tala, lengi að semja frumvörp, lengi að taka mál á dagskrá í nefnd. En einmitt af því að ég er alltaf að pæla í hvað þeir eru lengi þá hef ég verið lengi að ganga frá málefnaskránni! Hún byrjaði sem smá plagg en varð einhvern veginn stærri og stærri með hverjum deginum. Alltaf fannst okkur fleira og fleira skipta máli. En nú neyðist ég til að stoppa þessari skemmtilegu vinnu en eitt er víst að ég  á eftir að hafa mjög gaman af því að koma niður fleiri markmiðum og hugsa upp leiðir að þeim ef ég næ kjöri. 

Málefnaskráin verður vonandi sett hér inn um helgina. Í síðasta lagi á mánudag.

 


Wild Turkeys

Þegar ég var nýflutt inn á Miðstræti í Sydney vorum ég og nýi meðleigjandinn að reyna að bonda. Við töluðum um leik og störf, áhugamál og allt þetta venjulega sem fólk talar um þegar það er að kynnast (að undanskildu þekkirðu Dísu úr Árbæ...).

Talið barst að íþróttum og ég sagðist spila fótbolta. Þá sagði Josh: aha, when I was a child we used to say soccer is for sissies. Ég varð doltið hissa enda hafði mér alltaf þótt ægilega töff að spila fótbolta. En í Ástralíu fara naglarnir í rugby, næstmestu naglarnir fara í ástralskan fótbolta og það eru bara spillt börn í sparifötum sem fara í fótbolta. Þó jókst áhugi á fótbolta eitthvað þegar Ástralía komst í HM síðast svo Josh fyrirgaf mér alveg áhugann á þessari vinsælustu íþrótt heims, en hváði mjög þegar ég minntist á handbolta!

Nema hvað að þegar ég fór að spila fótbolta í Ástralíu áttaði ég mig á hvað Josh var að meina. Við bjuggum nokkur til fótboltalið og skráðum okkur á innanhúsmót háskólans. Liðið hét Wild Turkeys og við vorum öll hvert frá sínu landinu og m.a.s. frá þremur heimsálfum, að spila í þeirri fjórðu. En eitthvað þótti mér leikurinn takmarkaður. Boltinn var líkari blakbolta en fótbolta og völlurinn var eins og hálfur völlur en samt voru 5 á 5. Í ofanálag voru alls konar furðulegar reglur. Það mátti t.d. ekki skora fyrir innan ákveðna línu þannig að skot utan af velli voru betur séð en að spila sig alveg í gegnum vörnina. Í hvert sinn sem var skorað var tekin miðja sem hægði óneitanlega á öllu.

Smám saman lærði ég samt tæknina í þessari "nýju íþrótt" og fór að þykja þetta ljómandi gaman. Wild Turkeys unnu alla sína leiki í riðlakeppninni að undanskildum þeim fyrsta en þá gerðum við jafntefli. Við vorum því efst í riðlinum en klúðruðum úrslitakeppninni algerlega og höfnuðum að lokum í 4. sæti, daginn áður en ég fór heim. Ekki að ég sé neitt tapsár...


Platini

Michel Platini hefur verið kjörinn forseti UEFA. Ég held að það hafi án efa verið skynsamlegra hjá Íslendingum að styðja Platini því að Johanson var orðinn dálítið gamall og kannski búinn að vera forseti aðeins of lengi, ein 16 ár! Platini kann greinilega að sigra enda lagði hann strax til að Johanson yrði kjörinn heiðursforseti UEFA. Ég á dálítið bágt með að skilja af hverju Johanson tók þennan slag en kannski vegna þess að honum ætlaði ekki að takast að hafa eigin arftaka við stjórnvölinn. Það er alltaf hættulegt þegar menn geta ekki séð af völdunum og vilja halda áfram um stjórnartaumana bak við tjöldin.

En leitt þykir mér að Eggert Magnússon skuli ekki hafa náð að halda sæti sínu í stjórn UEFA. Hann hafði reyndar áður sagt að hann myndi ekki gefa kost á sér til  áframhaldandi setu ef honum tækist að festa kaup á West Ham. Ekki veit ég hvað varð til þess að hann skipti um skoðun en hitt er víst að það væri íslensku knattspyrnunni til framdráttar að hafa Íslending í stjórn UEFA, hvort sem hann á enskt knattspyrnulið eða ekki. 

Halla 


Tillögur fyrir landsþingið

Tillögur fyrir landsþingið eru komnar inn á heimasíðu KSÍ. Þær má nálgast hér.

Ég hvet alla áhugasama til að kíkja á þetta enda nokkrar góðar tillögur þarna. Mér líst t.a.m. mjög vel á tillögur um varalið í úrvalsdeildunum. Við í Þrótti-Haukum spiluðum þannig og ég held það hafi verið mjög gott fyrir okkur sem annars vermdum bekkinn, eða komumst jafnvel ekki svo langt, að spila í 1. deildinni.

Mér líst líka vel á markvarðatillöguna frá HK, þ.e. að markverðir í yngri flokkunum geti líka spilað sem útileikmenn. Markvörður a-liðs geti þá t.d. spilað sem útileikmaður í b-liði.  Ég held þetta skipti miklu máli í að þjálfa upp góða markverði. Þegar ég var að þjálfa var ég með sérstakar markmannsæfingar en ég man að það gat verið erfitt að halda krökkunum við efnið. Þau voru öll til í að vera tímabundið í marki, en sáu enga framtíð í því.

 


Bylting?

Ég hef orðið vör við það að fólk haldi að ég sé að fara að gera einhverja svakalega byltingu í KSÍ. Að ég ætli að breyta öllu sem nokkurn tímann hefur verið gert og að allt sé út í hött. Þetta hef ég aldrei sagt. Þvert á móti hef ég alltaf tekið fram að ég hyggist byggja á þeim góða grunni sem þegar hefur verið lagður. Ég ætla hins vegar að setja ákveðin atriði á oddinn og verða þau tíunduð í stefnuskránni sem nú er í smíðum. 

Hvað varðar svör við spurningum sem eru lagðar fyrir mig á hinum og þessum vefsíðum þá bendi ég fólki á að lesa stefnuskrána þegar hún kemur. Ég bið fólk einnig að bíða þolinmótt eftir henni, enda ætla ég ekki senda frá mér hálfklárað plagg í einhverju fáti. 

Formaður KSÍ vinnur í samstarfi við stjórnina sem situr hverju sinni. Hann vinnur líka í samstarfi við félögin og sem þjónn þeirra. Þess vegna væri vægast sagt undarlegt og ólýðræðislegt ef ég myndi buna út úr mér fjölda kosningaloforða. En sem formaður get ég verið með ákveðnar áherslur sem ég ætla mér að fylgja eftir. 

Annars finnst mér merkilegt að ég hef ekki orðið vör við að aðrir frambjóðendur í kjörinu fái svipaðar spurningar, því ég hef ekki orðið vör við miklar pælingar frá þeim um hverju þeir hyggist breyta eða hvað þeir vilji setja á oddinn.

 


Olga Onatop

Með hressilegri fótboltaliðum sem ég hef spilað með var hið stórgóða lagerteymi Olga Onatop. Þar spilaði lagerinn í Sól-Víking við skrifstofurassana á efri hæðinni. Skemmst er frá því að segja að blókirnar gersigruðu okkur í hverjum einasta leik. Ég reyndi einu sinni að taka gömlu landsliðstaktíkina og heimta að við pökkuðum í vörn og settum einn leikmann fremst sem fengi það hlutverk að skora. Þetta gekk furðuvel og í hálfleik var staðan 1-0 fyrir skrifstofuna. Við náðum svo að skora eitt mark í upphafi seinni hálfleiks og þá hljóp heldur mikið kapp í mína menn sem sóttu af svo mikilli hörku að þeir drifu aldrei í vörn og við fengum á okkur 11 mörk ef ég man rétt. Meðan stóð ég í vörninni og hrópaði stöðugt á menn að koma sér til baka.

 

En leikurinn var skemmtilegur og ég ætla svo sem ekkert að fara nánar út í uppskeruhátíðina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband