Misskilningur

Formaður KSÍ hefur ítrekað hunsað óskir mannréttindanefndar Reykjavíkur en nefndin óskaði fyrir margt löngu eftir upplýsingum um kynjamismunun innan hreyfingarinnar sem brýtur í bága við styrkjastefnu borgarinnar. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag. 

Óskað var eftir því 1. nóvember sl. að formaður KSÍ mætti á fund hjá nefndinni en þrátt fyrir ítrekun barst ekkert svar. Viðbrögð Geirs Þorsteinssonar, hins nýkjörna formanns KSÍ, í Fréttablaðinu í dag eru með eindæmum. Hann segir að dagpeningagreiðslurnar hafi verið jafnaðar og að nefndarmenn í mannréttindanefndinni séu líklega bara ekki að fylgjast með. Nú skal bent á að gagnrýnin snéri að því að formaður KSÍ hafi hunsað beiðni um að mæta á fund, ekki um dagpeningagreiðslur. Reykjavíkurborg styrkir mannvirkjagerð KSÍ með háum fjárhæðum og í ávarpi sínu í upphafi ársþingsins lagði Björn Ingi Hrafnsson mikla áherslu á jafnréttismál. Nýr formaður KSÍ ætti því alvarlega að huga að því að vinna með borginni frekar en að birtast í blöðum og hafa ekkert gáfulegra fram að færa en órökstuddar fullyrðingar um að málið byggi á misskilningi.

Misskilningur er greinilega nýja uppáhaldsorðið hans Geirs því af ummælum hans í Mogganum í gær mátti líka skilja að við Jafet hefðum dálítið verið að misskilja með því að bjóða okkur fram, misskilja hverjir fengju að kjósa. Formannsefnið ætti að koma nákvæmlega sömu leið og Geir sjálfur inn í hreyfinguna. Mér finnst þetta dálítið krúttilegt.

En hver er misskilningurinn varðandi mannréttindanefndina?

Mannréttindanefnd: Við óskum eftir formanni KSÍ á fund

KSÍ: (þögn)

Mannréttindanefnd: Okkur þætti mjög vænt um að formaður KSÍ kæmi á fund hjá okkur

KSÍ: (þögn)

Mannréttindanefnd: Við ítrekum ósk okkar um að formaður KSÍ láti sjá sig á fundi hjá okkur

 KSÍ: (þögn)

Mannréttindanefnd: Heyrðu, formaður KSÍ mætir bara ekkert á fund hjá okkur.

KSÍ: Þið eruð að misskilja!

Það er von að fólk spyrji sig hver er að misskilja?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband