Wild Turkeys

Þegar ég var nýflutt inn á Miðstræti í Sydney vorum ég og nýi meðleigjandinn að reyna að bonda. Við töluðum um leik og störf, áhugamál og allt þetta venjulega sem fólk talar um þegar það er að kynnast (að undanskildu þekkirðu Dísu úr Árbæ...).

Talið barst að íþróttum og ég sagðist spila fótbolta. Þá sagði Josh: aha, when I was a child we used to say soccer is for sissies. Ég varð doltið hissa enda hafði mér alltaf þótt ægilega töff að spila fótbolta. En í Ástralíu fara naglarnir í rugby, næstmestu naglarnir fara í ástralskan fótbolta og það eru bara spillt börn í sparifötum sem fara í fótbolta. Þó jókst áhugi á fótbolta eitthvað þegar Ástralía komst í HM síðast svo Josh fyrirgaf mér alveg áhugann á þessari vinsælustu íþrótt heims, en hváði mjög þegar ég minntist á handbolta!

Nema hvað að þegar ég fór að spila fótbolta í Ástralíu áttaði ég mig á hvað Josh var að meina. Við bjuggum nokkur til fótboltalið og skráðum okkur á innanhúsmót háskólans. Liðið hét Wild Turkeys og við vorum öll hvert frá sínu landinu og m.a.s. frá þremur heimsálfum, að spila í þeirri fjórðu. En eitthvað þótti mér leikurinn takmarkaður. Boltinn var líkari blakbolta en fótbolta og völlurinn var eins og hálfur völlur en samt voru 5 á 5. Í ofanálag voru alls konar furðulegar reglur. Það mátti t.d. ekki skora fyrir innan ákveðna línu þannig að skot utan af velli voru betur séð en að spila sig alveg í gegnum vörnina. Í hvert sinn sem var skorað var tekin miðja sem hægði óneitanlega á öllu.

Smám saman lærði ég samt tæknina í þessari "nýju íþrótt" og fór að þykja þetta ljómandi gaman. Wild Turkeys unnu alla sína leiki í riðlakeppninni að undanskildum þeim fyrsta en þá gerðum við jafntefli. Við vorum því efst í riðlinum en klúðruðum úrslitakeppninni algerlega og höfnuðum að lokum í 4. sæti, daginn áður en ég fór heim. Ekki að ég sé neitt tapsár...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband