16.2.2007 | 18:04
Rök og rökleysur
Ég átti von á því að framboðinu mínu lyki sl. laugardag með kosningunni. Svo hefur þó ekki verið og ég áttaði mig allt í einu á að ég hef hafið baráttu sem er ekkert að hætta. Ég fæ ennþá tölvupósta frá fólki sem þakkar mér framboðið og vill koma einhvejru á framfæri. Frá foreldrum, leikmönnum og áhugamönnum. Mér þykir vænt um hvert og eitt þessara bréfa og kem því hér með á framfæri þakklæti til þeirra sem hafa sýnt stuðning í verki með þessum hætti.
Ég heyri líka sögur af "af hverju fólk kaus mig ekki". Mér finnst dálítið fyndið hvað mörgum hefur þótt ástæða til að afsaka sig aðeins fyrir að hafa ekki lagt í að kjósa mig. Sumum fannst ég of róttæk, sem er líka spaugilegt enda get ég ekki séð mikla róttækni í saklausu slagorði á borð við fótbolta fyrir alla. Sumir segja hafa farið fyrir brjóstið á sér að flokksráð Vinstri grænna hafi lýst yfir stuðningi við mig. Fyrst ber að taka fram að þetta var ekki stuðningsyfirlýsing heldur lýsti ráðið yfir ánægju með framboðið og taldi það skref í jafnréttisbaráttunni. Það er þeirra skoðun og ég get ömögulega ákveðið hverjir styðja mig og hverjir ekki. Ég frétti af þessari yfirlýsingu eftr að hún var samþykkt og fagnaði honum eins og öðru jákvæðu í garð framboðs míns til formanns KSÍ. Enn ein rökin fyrir að kjósa mig ekki eru að ég hafi ekki klifrað upp stigann innan KSÍ. Það breytir því ekki að Jafet Ólafsson, sem hafði heldur ekki gert það, fékk tífalt fleiri atkvæði en ég.
Annars lærðum við það í uppeldisfræðinni í Kennó að ef e-r nefnir þrjár ástæður fyrir mistökum eða broti þá er hann/hún að ljúga. D. ég lána frænku minni teketil og fæ hann brotinn til baka. Frænkan segir: Ég sko, hann dat tí gólfið, eða sko óli missti hann og svo, eða þú veist það var jarðskjálfti.
Sambærilegt:
Halla Gunnarsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ.
- Hún getur ekki verið formaður.
- Af hverju?
- hún er kona
- það eru engin rök
- úps, hún er of ung
- en hún er með töluvert mikla reynslu
- hún veit ekkert um fótbolta
- jú reyndar, og hefur þjálfað í Tælandi og ég veit ekki hvað og hvað
- hún er ekki með nein stefnumál, hún bullar bara
- tjah, hún gaf nú út stefnuskrá með helstu málefnunum sínum, það hafa hinir frambjóðendurnir ekki gert
- já, er það ekki bara útópískt?
- tjah, mér virtist hún setja fram bæði markmið og leiðir að markmiðum
- hún er kvennapólitísk
- af hverju? af því að hún er kona? Eru Geir og Jafet þá ekki karlapólitískir?
- hún er a.m.k. femministi
- það heitir femínismi, og hvað er svona slæmt við það? Getur það spillt einhverju í KSÍ?
- hún er örugglega kommúnisti, ég sá að VG lýsti yfir stuðningi við hana
- tjah, hún ræður ekki hverjir styðja hana
- hún er alltof róttæk
- já, fótbolti fyrir alla er svaka róttækt
- hún hefur ekki verið í stjórn KSÍ, og heldur ekki verið framkvæmdastjóri í 13 ár og svo heitir hún ekki Geir.
- já, þetta er rétt hjá þér, við skulum ekki kjósa hana.