25.1.2007 | 16:41
182 stuðningsmenn
Í dag er vika síðan Halla gaf kost á sér til formanns KSÍ. Viðbrögð við framboðinu hafa verið mjög mikil og góð. Talsverð umræða hefur átt sér stað um stöðu knattspyrnunnar og hlutverk Knattspyrnusambands Íslands í fortíð, nútíð og framtíð.
Undanfarna 3 sólarhringa hafa 182 einstaklingar skráð sig sem stuðningsmenn Höllu hér á síðunni. Þar fyrir utan hafa henni borist gjafir, kveðjur og hvatning frá ótal aðilum nær og fjær. Meðbyrinn er hlýr og notalegur.
Að lokum er rétt að benda á stuðningsmannasíðuna, fyrir þau ykkar sem ekki hafa skráð sig, og stuðningsmannareikninginn fyrir þau ykkar sem viljið leggja fram fjármagn til kosningabaráttunnar.
Stuðningsmenn Höllu!
25.1.2007 | 13:48
KR-ingar
Skorað er á mig að svara spurningum inni á heimasíðu stuðningsmanna KR. Ég mun að sjálfsögðu verða við þeirri ósk en bið menn um að sýna dálitla þolinmæði enda er ég í vinnu alla daga og fram á kvöld og get því helst notað helgarnar í svona mál.
En gaman að heyra að KR sé að hugsa um að kjósa mig! Ég hélt að þetta væru harðir stuðningsmenn Geirs en hver veit nema þeir ágætu fótboltafélagar mínir og helstu forsvarsmenn hreyfingarinnar hafi ákveðið að ýta á einhverjar breytingar. Nema þá að það séu aðeins meðlimir í stuðningsmannaklúbbinum sem hafi áhuga. Maður spyr sig.
Halla
24.1.2007 | 11:27
FH
Ég sótti Íslandsmeistarana í karlaboltanum heim í gær en FH er það félag sem hefur lagt sig fram um að hitta alla frambjóðendur í formannskjörinu. Fundurinn var skemmtilegur, líflegur og jafnvel dýnamískur og ég held að við höfum náð nokkuð vel saman.
Ég áttaði mig á að kannski væri ákveðinn misskilningur í gangi. Sumir virðast halda að ég standi fyrir sjónarmið sem ég hef aldrei látið uppi. Margir hafa tekið til máls um fótbolta og er það vel. Sumir sem taka til máls hafa hins vegar lítið vit á fótbolta og það er líka allt í lagi, enda auðvelt að svara því sem er rangt sem og taka undir það sem er rétt. Það er hluti af því að búa í lýðræðissamfélagi.
Ég hvet fólk til að hlusta á það sem ég segi en ekki ákveða fyrirfram hvað ég er að segja. Ég er fyrst og fremst í þessu framboði af ástríðu fyrir fótbolta - fótbolta fyrir alla!
Halla Gunnars
24.1.2007 | 11:04
Ekkert spaug
23.1.2007 | 21:52
skráning á stuðningsmannalista Höllu!
Álagið vegna skráninga á stuðningsmannalista Höllu hefur gert það að verkum að sumir lenda í vandræðum með að skrá sig. Við viljum biðja ykkur afsökunar á þessu og munum reyna að kippa þessu í liðinn sem fyrst. Þangað til vonum við að þið getið sýnt þessu þolinmæði.
Með þökk fyrir frábæran stuðning!
23.1.2007 | 20:39
Viðtal við Höllu á fotbolti.net
Halla Gunnarsdóttir tilkynnti á fimmtudagsmorgun að hún ætli að bjóða sig fram til formanns KSÍ en kjörið fer fram á aðalþingi sambandsins 10. febrúar næstkomandi. Halla er þriðji frambjóðandinnn sem tilkynnir að hún ætli að bjóða sig fram til formanns, áður höfðu Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri sambandsins og Jafet Ólafsson tilkynnt um framboð. Af þeim er Halla líklegast minnst þekkt fyrirfram en fótboltinn er alls ekkert nýtt fyrri henni því hún hefur tekið þátt í boltanum bæði sem leikmaður og þjálfari. Við höfðum samband við hana og ræddum við hana um framboðið.
Það fyrsta sem okkur lék forvitni á að vita var hvað hún telji sig hafa fram að bjóða verði hún kjörin formaður KSÍ. Ég býð mig fram undir slagorðinu fótbolti fyrir alla, sagði Halla. ,,Fótbolti er frábært tæki til forvarna, til að vinna gegn fordómum og til að efla félagsþroska, samvinnu og sjálfstraust. Með þessa miklu ástríðu sem ég hef fyrir leiknum vil ég meina að ég yrði öflugur málsvari þessarar frábæru íþróttar. Mér finnst að allir eigi að geta fengið að spila fótbolta, sama hversu góðir þeir eru." ,,Ég hef talsverða reynslu af félags- og stjórnunarstörfum. Auk þess hef ég tekið þátt í knattspyrnu bæði sem leikmaður og þjálfari. En auðvitað er það ástríðan fyrir fótboltanum sem skiptir mestu máli. Ég hef séð hvernig fótbolti getur náð saman fólki frá ólíkum löndum sem jafnvel skilur ekki tungumál hvers annars. Það er það sem mér finnst svo heillandi."
Eggert Magnússon stígur nú úr stóli formanns KSÍ og hefur þegar haldið á vit nýrra ævintýra og er orðinn formaður West Ham United sem leikur í ensku úrvalsdeildinni. Nýr formaður KSÍ tekur svo við eftir kjörið 10. febrúar. En er margt sem Halla telur að þurfi að breyta hjá KSÍ? Mér finnst KSÍ hafa unnið mjög gott starf undanfarin ár. Tekist hefur að skapa góðar aðstæður fyrir afreksmenn í íþróttinni en mikilvægara finnst mér það sem gert hefur verið til að auka almennan áhuga á knattspyrnuiðkun ég nefni sem dæmi sparkvellina sem hafa verið byggðir um allt land. Ég vil auka áhersluna á hinn almenna þátttakanda og styðja enn betur við smærri félögin, félög úti á landi og félög í neðri deildum. Það er líka mjög mikilvægt að hlúa vel að yngri flokkunum þeir eru hornsteinn knattspyrnunnar."
,,Kvennaknattspyrnan er án efa helsti vaxtarbroddur íþróttarinnar. Á síðustu árum hafa orðið gífurlegar framfarir í íslenskri kvennaknattspyrnu. Ég þekki það vel sjálf en þegar ég byrjaði að æfa var ein æfing í bæjarfélaginu fyrir allar stelpur, hvort sem þær voru níu ára eða 15 ára. Kvennalandslið Íslands hefur staðið sig vel á aljóðavettvangi og stelpum sem leggja stund á knattspyrnu fjölgar stöðugt. En mér finnst að hlúa megi betur að kvennaknattspyrnunni á Íslandi. Afrek kvennalandsliðsins hafa til að mynda að mínu mati fengið allt of litla umfjöllun og lítinn stuðning. Ljóst er að Halla vill leggja áherslu á önnur málefni en hafa borið hæst innan KSÍ að undanförnu þrátt fyrir að sambandið hafi samþykkt fyrr í mánuðinum að jafna dagpeningagreiðslur til karla og kvenna eftir mikinn þrýsting.
Halla er þó ekki bara að fara í framboð til að koma sjónarmiðunum á framfæri því hún telur sig eiga möguleika á að ná kjöri. ,,Að sjálfsögðu tel ég mig eiga möguleika á að ná kjöri. En auðvitað eru það málefnin sem skipta mestu," sagði Halla. ,,Eftir að ég tilkynnti um framboð mitt hef ég orðið vör við mikinn stuðning við þau baráttumál sem ég hef sett fram og ef framboð mitt verður til þess að þessi mál fái brautargengi innan KSÍ, þá er takmarkinu náð hvort sem ég hrindi málunum í framkvæmd sem formaður eða aðrir frambjóðendur taka málin upp.
Halla segir málefnin skipta mestu en hvað ef hún yrði kjörin formaður KSÍ á ársþinginu í febrúar, væri hún tilbúin að ganga í starfið? Ég er að sækjast eftir kjöri sem formaður KSÍ. Auðvitað er ég tilbúin til að ganga í starfið!" svaraði hún. Geir Þorsteinsson hefur þegar fengið opinberan stuðning frá KR og félögunum á Suðurnesjunum og þó fleiri félög hafi ekki lýst yfir opinberum stuðning telja menn ljóst að Jafet Ólafsson njóti stuðnings nokkurra af stærri félögunum á landinu. Hvað með Höllu, við spurðum hana hvort hún vissi um félög sem ætla að gefa henni sitt atkvæði á þinginu. ,,Ég hef fundið fyrir miklum og vaxandi stuðningi við framboð mitt og hef átt góðar samræður við ýmsa innan fótboltahreyfingarinnar. Það er hins vegar ekki mitt að vera með yfirlýsingar um hverjir kjósa mig því eftir allt eru það einstaklingar sem kjósa.
Mikil umræða hefur átt sér stað að undanförnu eftir umfjöllun Fréttablaðsins um það að leynd ríkir um hver laun formanns KSÍ eru en aðeins einn frambjóðandanna sem bjóða sig fram til formanns, Geir Þorsteinsson, veit hver þau eru. Halla vill að launamálin séu uppi á borðinu. ,,Formaður KSÍ er í mínum huga umboðsmaður og þjónn aðildarfélaganna. Hlutverk formannsins er að gæta hagsmuna félaganna hafa umsjón með knattspyrnumálum og vinna að framþróun knattspyrnunnar. Mér þætti afar óeðlilegt að umbjóðendur mínir, þau félög sem ég væri að vinna fyrir, fengju ekki að vita hvað ég hefði í laun. Eggert Magnússon hefur þegið laun fyrir starfið sem ekki eru gefin upp og Geir Þorsteinsson ætlar að láta af starfi framvæmdastjóra sambandsins. Verði hann kjörinn formaður má því telja ljóst að hann ætli sér að fá alvöru laun fyrir starfið. Jafet Ólafsson sem einnig býður sig fram ætlar sér ekki að fá greidd laun verði hann kjörin formaður en hann greindi frá því í viðtali við Fótbolta.net. Halla segist telja eðlilegt að formaðurinn fái greidd laun en þau megi ekki gera starfið eftirsóknarvert. ,,Ég veit ekki hvað þú átt við með alvöru laun. Starf formanns KSÍ er bæði mikilvægt og annasamt en það er alls ekki sambærilegt við starf bankastjóra eða forstjóra eða verðbréfamiðlara. Mér finnst eðlilegt að formaðurinn fái laun fyrir vinnu sína en starfið má ekki vera eftirsótt vegna launanna.
Halla tilkynnti um framboð sitt á fréttamannafundi á fimmtudagsmorgun og kom mörgum á óvart að hún skyldi bjóða sig fram enda hafði hún ekkert verið í umræðunni varðandi framboðið. Hún segist hafa fengið góðar viðtökur.,,Það er gaman að segja frá því. Mér hafa borist stuðningsyfirlýsingar úr ólíklegustu áttum. Baráttumál mín virðast hafa mjög breiðan hljómgrunn, bæði meðal karla og kvenna. Mér þykir afar vænt um þennan stuðning og einnig traustsyfirlýsingar sem mér hafa borist. Ég átti satt best að segja ekki von á að fá svona mikinn stuðning."
,,Örfáar neikvæðar raddir hafa heyrst og gagnrýnin er þá aðallega að ég sé ekki innmúruð í KSÍ eða að ég sé kona, og að konur eigi ekkert upp á dekk. Sumir virðast líka halda að ég sé að grínast og ég velti fyrir mér hvort aðrir frambjóðendur hafi verið spurðir hvort þeir séu að grínast. Mér finnst þessi málflutningur heldur ómerkilegur og vona að þessi kosningabaráttan muni snúast um málefni en ekki um kyn frambjóðanda. Með öðrum orðum er ég að bjóða mig fram þótt ég sé kona."
http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=43676?&flash=true
22.1.2007 | 23:14
Kæru félagar
Sem kunnugt er hefur Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður, ákveðið að gefa kost á sér til embættis formanns KSÍ. Næstu vikur munu því verða talsvert annasamar í að kynna málefni Höllu fyrir sem flestum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Við óskum eftir þínum stuðningi við kosningabaráttuna. Ef þú hefur tíma til aflögu sendu okkur endilega póst á Kára, karigy@hi.is og við verðum í sambandi.
Opnaður hefur verið reikningur til að standa straum af kostnaði við kosningabaráttuna, s.s. ferðalög og símreikning. Reikningsnr. er: 0323-13-700581, kt. 0801812999.
Með von um góð viðbrögð.
Bestu kveðjur
Stuðningsmenn Höllu Gunnars
22.1.2007 | 23:11
Framboðstilkynning Höllu Gunnarsdóttur
Ég vil auðvitað byrja á að þakka ykkur fyrir að koma enda málefnið mikilvægt, um er að ræða forsvarsmann stærstu íþróttahreyfingar landsins.
Ég þarf varla að fjölyrða um gildi íþrótta í forvarnarstarfi, eflingu félagsþroska, og hvers annars sem sérfræðingar fróðari mér hafa sýnt fram á. Íþróttasamband Íslands hefur lengi notað slagorðið Íþróttir fyrir alla. Eðlilegt er að Knattspyrnusamband Íslands tileinki sér þessa hugsun og tali fyrir knattspyrnu fyrir alla. Því miður hefur það stundum ekki verið raunin. Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar undanfarin ár þá hefur Knattspyrnusambandið stundum gleymt sér og einblínt um og of á afreksknattspyrnumenn. Það hefur komið niður á þeim sem síst mega við því. Starfsemi yngri flokka er og verður hornsteinn knattspyrnu á Íslandi. Að henni þarf að hlúa.
Undanfarin ár hefur verið unnið mikið starf í þágu knattspyrnu barna. Ber þá hæst uppbygging sparkvalla um allt land sem gefa börnum tækifæri á að leika sér í fótbolta, án þess að það þurfi allaf að vera bundið við skipulagðar æfingar. En enn kemur það þó fyrir að börn hrökklist út úr íþróttinni með lítið sjálfstraust. Þarna skiptir menntun þjálfara höfuðmái. lAnnað er þó verra og það er hvernig staðið hefur verið að kvennaknattspyrnu á landinu undanfarin ár. Kvennalandsliðið, sem hefur staðið sig með sóma á alþjóðavettvangi, hefur fengið skammarlega lítinn stuðning. Sama má segja um úrvaldsdeild kvenna en skemmst er að minnast umræðu um skiptingu verðlaunafjár milli kvenna- og karladeildarinnar. Meðan ástandið er svona hjá bestu knattspyrnukonum landsins er augljóst að ekki er vel hlúð að þeim sem yngri eru.
Í þessum efnum þarf eina allsherjar tiltekt. Að þessu sögðu, vil ég tilkynna hér formlega framboð mitt til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Fótbolti hefur verið mitt líf og yndi frá því að ég 6 ára gömul gekk í fyrsta sinn út á völl og spurði hvor ég mætti vera með. Ég er hins vegar ekki afrekskona, heldur fyrst og fremst leikmaður með ástríðu fyrir leiknum. Ég hef þjálfað börn og unglinga í þremur löndum, komið að stofnum fótboltaliðs í Tælandi og uppbyggingu knattspyrnuvallar í sígaunahverfi í Rúmeníu þar sem kynþáttafordómar koma í veg fyrir að sígaunakrakkar geti leikið sér í fótbolta á öðrum velli bæjarins.
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en gef kost á viðtölum að loknum fundinum.
Ég hlakka til góðrar og sanngjarnar baráttu um formannssætið í KSÍ. Fótbolti fyrir alla!