11.2.2007 | 12:02
Allt tekur enda...
Þá er kosningin búin. Geir Þorsteinsson var kjörinn formaður KSÍ með miklum yfirburðum. Ég óska honum til hamingju með það. Hvorki ég né Jafet Ólafsson náðum eins góðri kosningu og við bjuggumst við. Jafet fékk 29 atkvæði og ég aðeins þrjú. Þetta þýðir að aðeins 32 af 118 fulltrúum vildu breytingar. Það eitt og sér kom mér á óvart því það var ekki í takti við það sem ég heyrði á fólki í samtölum og símtölum. Mér finnst standa upp úr að kjósendur fengu að velja á milli áherslna enda stóðum við þrjú fyrir mismunandi hluti þótt ákveðinn samhljómur væri hjá okkur öllum.
Það gefur augaleið að bæði ég og Jafet sóttum stuðning okkar meira til smærri félaga þótt Jafet hafi líka náð einhverjum "stórjöxlum" á sitt band. Ég stend fast á því, eins og reyndar nokkrir þingfulltrúar sem ég ræddi við, að skipting atkvæða með þeim hætti sem hún er í lögum sé ekki rétt enda á KSÍ að vera samband allra félaga sinna. Mér þætti eðlilegra að félög fengju einn fulltrúa fyrir að halda úti meistaraflokki karla, annan fyrir að halda úti meistaraflokki kvenna og þann þriðja fyrir að vera með virkt yngri flokka starf. Það er að mínu mati miklu lýðræðislegra.
Á göngunum var pískrað um hrossakaup varðandi kosningu til formanns og kosningu í stjórn. Ég veit ekki hvort eitthvað sé hæft í því en ef svo er þá finnst mér það ekki vera til fyrirmyndar fyrir knattspyrnuhreyfinguna.
Margir þökkuðu mér fyrir ræðuna sem ég flutti og fögnuðu þeim áherslum sem ég lagði upp með. Einn fulltrúi sagði að hefði fólk ekki komið með fyrirfram mótaðar hugmyndir á þingið hefði ég fengið miklu fleiri atkvæði. Og það er líklega það sem mér finnst skrítnast við þetta allt saman, að það er eins og allt hafi verið ákveðið fyrirfram.
Það er auðvitað svolítið spennufall í mínum herbúðum. Ég spurði mig í morgun hvað ég ætti núna að gera. Síðustu mánuðir hafa verið undirlagðir vinnunni við framboðið og það var að mörgu að hyggja. Þetta hafa verið skemmtilegir mánuðir og eiginlega skemmtilegast að tala svona mikið um fótbolta!
Upp úr stendur sá mikli velvilji og stuðningur sem ég hlaut og ég er óendanlega þakklát öllu því fólki sem lagði hönd á plóg eða sýndi stuðning sinn á annan hátt. Mín tilfinning er að þjóðfélagið hafi viljað sjá breytingu, en KSÍ var ekki tilbúið. Misgóðir pennar hafa gagnrýnt mig fyrir að hafa haldið að stuðningur í þjóðfélaginu skipti einhverju máli, en þeir átta sig ekki á að þar sem fótbolti er vinsælasta íþrótt í heimi, og á Íslandi, þá hefur þjóðfélagið svolítið mikið um fótbolta að segja!
Ég spila alla mína leiki til að sigra. Ég er með mikið keppnisskap og óhjákvæmilegur fylgikvilli þess er að vera tapsár. En ég er alin upp í litlu liði sem tapaði oft og þess vegna kann ég bæði að tapa og vinna. Og þetta er ekkert í fyrsta sinn sem ég tapa fyrir KR á útivelli... og þriðja sætið er kannski ekki svo slæmt ;)