28.1.2007 | 11:39
Bylting?
Ég hef orðið vör við það að fólk haldi að ég sé að fara að gera einhverja svakalega byltingu í KSÍ. Að ég ætli að breyta öllu sem nokkurn tímann hefur verið gert og að allt sé út í hött. Þetta hef ég aldrei sagt. Þvert á móti hef ég alltaf tekið fram að ég hyggist byggja á þeim góða grunni sem þegar hefur verið lagður. Ég ætla hins vegar að setja ákveðin atriði á oddinn og verða þau tíunduð í stefnuskránni sem nú er í smíðum.
Hvað varðar svör við spurningum sem eru lagðar fyrir mig á hinum og þessum vefsíðum þá bendi ég fólki á að lesa stefnuskrána þegar hún kemur. Ég bið fólk einnig að bíða þolinmótt eftir henni, enda ætla ég ekki senda frá mér hálfklárað plagg í einhverju fáti.
Formaður KSÍ vinnur í samstarfi við stjórnina sem situr hverju sinni. Hann vinnur líka í samstarfi við félögin og sem þjónn þeirra. Þess vegna væri vægast sagt undarlegt og ólýðræðislegt ef ég myndi buna út úr mér fjölda kosningaloforða. En sem formaður get ég verið með ákveðnar áherslur sem ég ætla mér að fylgja eftir.
Annars finnst mér merkilegt að ég hef ekki orðið vör við að aðrir frambjóðendur í kjörinu fái svipaðar spurningar, því ég hef ekki orðið vör við miklar pælingar frá þeim um hverju þeir hyggist breyta eða hvað þeir vilji setja á oddinn.